Spurt og svarað

Hafa tannréttingatæki áhrif á tal, kyngingu, tyggingu o.þ.h.?
Gómplötur, þanskrúfur, gómbogar o.þ.h. tæki sem fara upp í góminn geta haft áhrif á tal, kyngingu og tyggingu til skamms tíma. Að nokkrum dögum liðnum aðlagast þó tungan þessum breyttu aðstæðum í munninum.  Spangir og annað sem er límt framan á tennur hefur ekki áhrif á tal.

Er vont að fá spangir?
Það er ekki vont að láta líma spangir á tennurnar, en tennurnar verða aumar í nokkra daga eftir að byrjað er að færa þær til í tannréttingunni.  Búast má við að þessi eymsli geti varað frá 2 dögum og allt upp í heila viku. 
Það er mjög einstaklingsbundið hversu mikið hver og einn finnur fyrir sársauka/eymslum við að fá spangir á tennurnar.  Sumir finna aldrei neinn sársauka á meðan aðrir taka verkjatöflur fyrstu dagana eftir að spangirnar eru settar á tennurnar.
Ef þörf er á að taka verkjatöflur þá mælum við með verkjalyfjum sem fást án lyfseðils í apótekum, t.d. verkjalyfjum sem innihalda paracetamol (t.d. Panodil eða Paratabs) eða ibuprofen (t.d. Íbúfen).  
Athugið vel að ekki sé til staðar ofnæmi fyrir lyfinu og farið ávallt eftir leiðbeiningum á lyfjaglasi um skammtastærðir.

Hvað geri ég ef spangirnar losna eða bila?
Ef tækjabúnaður losnar eða brotnar þarf að laga hann eða líma við fyrsta hentuga tækifæri. Stundum má þó bíða þar til í næsta tíma. Það á sérstaklega við ef það sem brotnaði eða losnaði er ekki að meiða viðkomandi á neinn hátt.
Hringdu og láttu okkur alltaf vita ef eitthvað bilar. 

Hverjir eru helstu áhættuþættir í tannréttingameðferð?

Úrkölkun á glerungi (skemmdir), rótarstytting og í einstaka tilvikum rótardrep eru helstu áhættuþættirnir við að hafa spangir á tönnunum.
- Ef tennur eru ekki vel hirtar þá er töluverð hætta á að úrkölkun verði á glerungi og tennur skemmist.  Oftast sjást þessar byrjandi skemmdir sem hvítar rákir framan á tönnunum, gjarnan við tannholdið og í kringum spangirnar sem límdar eru á tennurnar.
Mjög mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um tannburstun og þrif.
- Óveruleg rótarstytting verður hjá um 5-10% einstaklinga með spangir.  Alvarlegri rótarstytting getur orðið í u.þ.b. 1-3% tilvika.  Fylgst er með mögulegum rótarstyttingum með því að taka kjálkabreiðmynd á meðan á meðferð stendur.
- Ef rótardrep uppgötvast á meðan á tannréttingu stendur þarf að rótfylla tönnina.  Þetta eru í lang flestum tilvikum tennur sem hafa orðið fyrir höggi/áverka eða slysi áður en tannrétting hófst eða á meðan á henni stendur.

Mun rými fyrir tennurnar aukast þegar kjálkarnir vaxa?
Mjög líklega mun það ekki gerast. Um 8-10 ára aldurinn er rými í tannbogunum í hámarki, eftir það eykst það ekki þrátt fyrir að kjálkarnir eigi eftir að vaxa fram og stækka.

Þarf alltaf að fjarlægja tennur í tannréttingameðferð?
Nei, en stundum eru tennur dregnar/fjarlægðar ef mjög þröngt er um tennur og þörf er á miklu rými til að koma öllum tönnum fyrir. Einnig eru tennur stundum dregnar til að laga bit.

Hversu langan tíma tekur tannréttingameðferð?
Það fer eftir eðli tann- og bitskekkjunnar hversu langan tíma tekur að rétta tennur og bit. Algengur tími fyrir fulla tannréttingameðferð eru tæp 2 ár, en getur tekið allt að 3 árum.

Hvers vegna tekur meðferðin stundum lengri tíma en áætlað var?
Meðferðartími ræðst af mörgum þáttum; sumum sem tannlæknirinn hefur stjórn á, öðrum sem sjúklingurinn hefur stjórn á og enn öðrum sem engin hefur stjórn á, eins og t.d. vexti.
Með því að mæta í alla heimsóknir á réttum tíma, nota tækjabúnað rétt (beisli, teygjur o.þ.h.), halda tannréttingabúnaði heilum og þrífa tennur vel er líklegra að meðferðin gangi vel og klárist á tilsettum tíma.  Ef spangir eru hinsvegar sífellt að brotna, fyrirmælum er ekki fylgt og viðkomandi missir af tímum þá er nær öruggt að meðferðin dregst á langinn og meðferðartíminn verður lengri en upphaflega var áætlað. 
Tímaáætlunin sem við setjum niður í upphafi er til viðmiðunar, en að sjálfsögðu meðhöndlum við tennur og bit þar til ásættanlegri niðurstöðu er náð.

Hversu oft þarf ég að mæta?
Til að tannréttingameðferðin taki sem skemmstan tíma þarftu að koma á 4-6 vikna fresti og láta skipta um boga, stilla það sem þarf að stilla og gera við ef eitthvað bilar.

Þarf ég að fara til almenna tannlæknisins þegar ég er með spangir?
Já, það er mjög mikilvægt að fara reglulega til fjölskyldu tannlæknisins í eftirlit og hreinsun. Þó svo að þú mætir í tíma til tannréttingalæknisins reglulega þá er hann ekki að leita að skemmdum á milli tanna, undir fyllingum, eða að meta þörf fyrir skorufyllur, flúor o.þ.h.

Hvað eru forréttingar?
Tannréttingar sem fara fram á meðan barnið er ennþá með margar barnatennur má kalla forréttingar. Forréttingar miða að því að minnka þörf fyrir tannréttingu þegar fullorðinstannsett er komið í munn, eða gera hana auðveldari og/eða með minni fyrirhöfn.
Í forréttingum er oft reynt að vinna með eða á móti vexti, allt eftir þörf hverju sinni.

Afhverju þarf ég að nota beisli?
Í ákveðnum tilfellum þarf að nota beisli með spöngum, eða jafnvel áður en spangir eru settar upp.  Þetta er yfirleitt gert til þess að hafa áhrif á vöxt kjálkanna og/eða færa tennur til.
Beisli er notað á kvöldin og næturnar og hefur mjög lítil áhrif ef það er ekki notað í a.m.k. 8-10 klst á sólarhring.  Því er mjög mikilvægt að nota það eins og tannlæknirinn segir til um.

Þurfa allir að fá góm eftir meðferðina?
Í lang flestum tilfellum mælum við með því að stuðningsgómur sé notaður eftir tannréttingameðferð.  Rétt notkun á gómnum hjálpar til við að halda tönnunum stöðugum og bitinu góðu.
Algengt er að gómur sé notaður dag og nótt í u.þ.b. 6 mánuði, en eftir það á næturnar í 1-2 ár.

Er of seint að fá spangir á fullorðinsaldri?
Það er aldrei of seint! Margir kjósa að fá spangir á unglingsaldri og er það heppilegt þegar þarf að vinna með vexti á kjálkum ef um bitskekkjur er að ræða. Á fullorðinsaldri er hinsvegar enn hægt að laga ýmsar tann- og bitskekkjur.  Mjög mikilvægt er að tennur og tannhold sé heilbrigt ef farið er í tannréttingar á fullorðinsárum.

Geta allir fengið glærar/hvítar postulínsspangir?
Kostur postulínsspanganna er sá að þær eru fallegri og sjást í flestum tilfellum minna en hinar hefðbundnu stál spangir. Hinsvegar eru þær örlítið viðkvæmari og þola högg, hnjask og illa meðferð verr.  En almennt séð geta allir sem kjósa fengið postulínsspangir.

Geta allir fengið Invisalign spangir?
Invisalign spangir eru mest notaðar á fullorðna einstaklinga.  Almennt má segja að þær virki vel í þeim tilfellum þar sem aðeins er um tannskekkju að ræða en ekki mikla bitskekkju.  Minniháttar þrengsli og bil á milli tanna er t.d. auðvelt að laga með Invisalign spöngum. 
Sjá frekari upplýsingar um Invisalign spangir á forsíðu.