Hreinar tennur

Með spangir eru meiri líkur á að óhreinindi safnist á tennurnar, því þarf að hirða vel um þær. Þegar meðferð hefst er þér kennt að þrífa tennurnar með spangir. Þú færð einnig með þér allan þann búnað sem þarf til að geta þrifið tennurnar og tannréttingabúnaðinn. Það er mjög mikilvægt að hirt sé vel um tennurnar, vandað sé til verka við tannburstun og flúorskol sé notað á hverjum degi. Ef það er ekki gert eykst hætta á að tennur skemmist og tannholdsbólgur verði vandamál.
Þó svo að þú mætir í tíma til okkar reglulega þá erum við ekki að leita að skemmdum á milli tanna, undir fyllingum, eða að meta þörf fyrir skorufyllur, flúor o.þ.h. Það er því mjög mikilvægt að halda áfram að fara reglulega til fjölskyldu tannlæknisins í eftirlit og hreinsun. Ef tannhirða er slæm á meðferðartímanum þá mælum við með tíðara eftirliti hjá tannlækninum þínum.
Smelltu á myndirnar hér að neðan til að stækka.
Hreinar og heilbrigðar tennur og tannhold eftir tannréttingar.
Hreinar og heilbrigðar tennur og tannhold eftir tannréttingar.
Slæm tannhirða.  Úrkalkanir/skemmdir (hvítar skellur) og bólga í tannholdi.
Slæm tannhirða. Úrkalkanir/skemmdir (hvítar skellur) og bólga í tannholdi.
Afleit tannhirða.  Miklar skemmdir og bólgið tannhold.
Afleit tannhirða. Miklar skemmdir og bólgið tannhold.

Burstun

Burstaðu tennur vel og vandlega kvölds og morgna. Eftir máltíðir er einnig gott að bursta létt yfir tennur til að vera viss um að ekki sitji matur í spöngunum.
Notaðu burstann fyrst beint á framhlið tanna og hreyfðu hann með litlum nuddhreyfingum yfir yfirborð tanna og spanga. Vertu svo viss um að bursta vel svæðið framan á tönnunum á milli spanganna og tannholdsins, leyfðu burstanum að fara vel upp á tannholdið. Gott er að halla burstanum þannig að tannbursta hárin fari undir vírinn og tannréttingasporin eins og hægt er.
Endaðu á að bursta framhlið tannanna með því að fara vel yfir svæðið neðan við spangirnar í efri góm, og ofan við spangirnar í neðri góm, þ.e. við bitkantana og bitfletina. Reyndu aftur að halla burstanum þannig að tannbursta hárin fari undir vírinn og tannréttingasporin.

Burstaðu því næst bitfleti tannanna vandlega, og að lokum innra borð tannanna.Millitanna burstarnir, eða litlu "flösku burstarnir", eru nauðsynlegir til að þrífa vel það yfirborð tannanna sem liggur undir vírnum og aðrir burstar ná illa til. Mikilvægt er að bursta alveg upp að tannréttingasporunum á hverri tönn með þessum litlu burstum.
Skoðaðu meðfylgjandi myndskeið til að átta þig á því hvernig milli-tannaburstarnir virka best.


Tannþráður

Til að þrífa öll yfirborð tannarinnar er mikilvægt að nota tannþráð á milli tannanna. Þegar spangir eru á tönnunum er hinsvegar ekki auðvelt um vik að komast á milli þeirra. Því þarf að nota sérstakar plast "nálar" til að þræða tannþráðinn undir vírinn. Þegar því er lokið er hægt að nota tannþráðinn eins og vanalegt er. Tannþráðurinn er þá lagður að yfirborði annarrar tannarinnar í bilinu og þráðurinn hreyfður upp og niður. Svo er tannþráðurinn lagður þétt upp að hinu yfirborðinu og tönnin hreinsuð með því að draga tannþráðinn aftur upp og niður. Að því loknu er hægt að flytja sig í næsta bil og gera slíkt hið sama.
Í stað "nálanna" má einnig nota tannþráð með stífum enda sem auðvelt er að þræða undir vírinn.  Meðfylgjandi myndskeið sýnir hvernig best er að bera sig að við það.Flúorskol

Mælt er með því að flúorskol sé notað kvölds og morgna að lokinni tannhirðu.

 

Vefumsjón